Óravíddir Orðaforðinn í nýju ljósi

Sýning í Safnahúsinu við Hverfisgötu 7. júní 2019 - 31. maí 2020

Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi er innsetning á myndrænni birtingu íslensks orðaforða í þrívídd sem unnin er upp úr Íslensku orðaneti eftir Jón Hilmar Jónsson.

Íslenskt orðanet er umfangsmikið yfirlit í orðabókarbúningi um íslenskan orðaforða og innra samhengi hans, byggt á greiningu á merkingarvenslum íslenskra orða og orðasambanda. Gengið er út frá þeirri forsendu að lesa megi merkingarvensl orða út úr setningarlegum og orðmyndunarlegum venslum þeirra eins og þau birtast í orðasamböndum og samsetningum. Í upphafi lá til grundvallar safn orðasambanda og samsetninga með samræmdri framsetningu sem hefur að geyma rösklega 200 þúsund orðasambönd af ólíku tagi og um 100 þúsund samsetningar. Þetta safn sameinar gagnaefni Stóru orðabókarinnar um íslenska málnotkun (2005) og Orðasambandaskrá Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabókar Háskólans). Til viðbótar þessu efni hefur mjög verið leitað fanga í stafrænum textasöfnum og málheildum, einkum í safninu Tímarit.is og Markaðri íslenskri málheild. Allt þetta efni er tengt flettulista sem sameinar um 250 þúsund einyrtar og fleiryrtar flettur.


Orðaforðinn í þróun

Á sýningunni má finna nokkur orð sem fest eru á veggina. Þetta eru annars vegar orð sem virðast vera í aukinni notkun í tungumálinu og hins vegar orð á útleið.

Dvínandi

Dæmi um orð sem eru í dvínandi notkun:

Eðallundaður
Eðallyndur, sá sem er með gott geðslag, vandaða lund.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Ótili
Tjón, skaði, erfitt og mikið verk.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Viðmeti
Viðbit, matarbætir
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Áteiknun
Skrifleg eða teiknuð staðfesting sambærileg undirskrift eða stimpli.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Bifan
Smáhreyfing, geðshræring.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Aldeyða
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Dreiss
Dramb, hroki.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Stumpasirs
ákveðin vefnaðarvara sem var mikið auglýst og selt á Íslandi snemma á 20. öld. Vinsælt var að sauma úr því svuntur.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Líkaböng
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Kjötsnúður
Kjötbolla úr maukuðu kjöti eða kjötdeigi.
Málið.is, sjá dæmi í ritmálssafni

Vaxandi

Dæmi um orð í vaxandi notkun:

Hamfarahlýnun
Nýtt orð yfir hnattræna hlýnun.

Úrkomuákefð
Magn úrkomu yfir ákveðið tímabil.

Vegferð
Ferð, ferðalag (oft í yfirfærðri merkingu)
Málið.is

Kolefnisjöfnun
Nað að planta (trjá)gróðri til að vega upp á móti losun kolefnis í andrúmsloftið.
Málið.is

Flugskömm
Samviskubit sem þeir sem ferðast með flugvél fá vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum.
Málið.is

Örplast
Örsmáar plastagnir sem geta valdið skaða í náttúrunni
Málið.is

Gámagrams
Það að leita að ætum mat og öðrum verðmætum í ruslagámum á bak við verslanir.
Nýyrðavefurinn

Skólaforðun
Það þegar börn og unglingar vilja ekki fara í skólann.

Þungunarrof
Lyfjagjöf eða önnur læknisaðgerð sem framkvæmd er að beiðni konu í því skyni að rjúfa þungun.

Umhverfisvitund
Aukin vitneskja um umhverfið og áhrif mannsins á það.
Málið.is


Kannaðu tengslin

Hér getur þú flett því upp hvernig tvö orð tengjast í gegnum orðanetið. Hvernig tengjast til dæmis orðin sauðkind og kanna, bankastjóri og kafbátur eða reiðfatnaður og rjómakaka?

Þú finnur orðin í listunum til hægri og vinstri þar sem þú smellir á þau. Notaðu músina til að snúa, stækka eða minnka orðanetið sem birtist.

Um sýninguna

Sýningin Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi er á þriðju hæð í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Safnahúsið er opið daglega yfir sumartímann frá klukkan 10 til 17.

Vefsíða Safnahússins.


Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Árnagarði við Suðurgötu
101 Reykjavík
arnastofnun@arnastofnun.is